|
Siklíðum af ættinni Otopharynx svipar mjög til páfuglssiklíða (Aulonocara) og eru með fallegri fiskum sem finnast. Munurinn á ættunum tveim liggur í höfuðlaginu. Höfuðið er mjórra í Otopharynx siklíðum en álnakörum. Þetta eru munnklekjarar eins og flestar aðrar malavísiklíður. Karlarnir skarta stórkostlegum litum meðan kerlurnar eru flestar litlitlar - brúnleitar og þverrákóttar. Æxlunarferlið er stórfenglegt á að horfa. Karlfiskurinn eignar sér yfirráðasvæði, finnur sér sléttan stein eða flöt og lokkar kerluna að með miklum darraðardans. Hann dreifir sæði sínu á steininn og hún lætur eggið í það og tekur það jafnharðan upp í sér til útungunnar. Þegar hrygningunni er lokið rekur karlinn hana burt og hefur ekkert meira með hana að gera. Meðgangan er um 3 vikur og að því loknu sleppir kerlan seiðunum og skiptir sér ekki af þeim meir.
|
|