|
Protomelas siklíðurnar úr Malavívatni eru með fallegri fiskum sem finnast. Þetta eru munnklekjarar eins og flestar aðrar malavísiklíður. Þeim svipar mjög til siklíða af Aulonocara ætt en eru samt flokkaðir sér og teljast ekki heldur til mbúna. Nafnið merkir “fyrst” (proto-) “svartur” (-melas) og vísar til áberandi þverbanda á búknum og 2-3 langsumráka sem greina má á þeim. Um 14 tegundir hafa verið flokkaðir til þessarar ættar. Karlarnir skarta stórkostlegum litum en kerlurnar eru oftast litminni og daufari. Æxlunarferlið er stórfenglegt á að horfa. Hængurinn eignar sér yfirráðasvæði, finnur sér sléttan stein eða flöt og lokkar hrygnuna að með miklum tilþrifum. Hann dreifir sæði sínu á steininn og hún lætur eggið í það og tekur það jafnharðan upp í sér til útungunnar. Þegar hrygningu er lokið rekur hann hana burt og hefur ekkert meira með hana að gera. Meðgangan er um 3 vikur og að því loknu sleppur hrygnan seiðunum og skiptir sér ekki af þeim meir..
|
|