|
Í arnpáfaættkvíslinni (Ara, Anodorhynchus og Cyanopsitta) eru um 20 tegundir og afbrigði. Heimkynni þeirra eru á Amasonsvæðinu í Suður-Ameríku og nokkrar útdauðar tegundir fundust áður á eyjum Karíbahafsins. Þó nokkrar tegundir eru í bráðri útrymingarhættu en aðrar eru enn algengar. Þeir spanna frá um 33 cm á lengd upp í 100 cm. Þetta eru fallegir og skemmtilegir fuglar, og flestir mjög félagslyndir. Þeir láta gjarnan í sig heyra kvölds og morgna og hafa mikinn bitkraft. Margar tegundir eru hafðar sem gæludýr í heimahúsum og veita eigendum sínum ómælda ánægju. Það er heilmikil skuldbinding að eiga þá vegna þess hve langlífir þeir eru. Sumir geta náð allt að 100 ára aldri þannig að þeir geta orðið erfðagripur. Arar eru þekktir fyrir mikinn leikaraskap og eru oft hafðir á dýrasýningum í útlöndum. Þeir eru yfirleitt auðveldir í meðförum en þurfa stöðugan ástríkan aga og gott aðhald til að þeir verði ekki frekir og yfirgangssamir.
|
|